Óvígð sambúð

Að vera í óvígðri sambúð er algengt sambúðarform á Íslandi. Fæstir, ef einhverjir, ætla sér annað en að sambúðin endist og margir hverjir stefna að því að ganga á endanum í hjónaband. Staðreyndin er þó sú að fjölmörg pör slíta óvígðri sambúð á hverju ári og margir hverjir eftir langan sambúðartíma.
Því miður er það algengur misskilningur að sömu réttarreglur gildi um sambúðarfólk og fólk í hjúskap/staðfestri samvist. Raunin er sú að afar ólíkar reglur gilda um þessi sambúðarform. Engin sér lög hafa verið sett um réttarstöðu sambúðarfólks eins og gilda um fólk sem er í hjúskap og er staða þessara tveggja hópa ekki sambærileg.
Ekki er til staðar erfðaréttur á milli sambúðaraðila eins og þeirra sem eru í hjúskap né réttur til lífeyrisgreiðslna eftir hinn skammlífari. Þá getur eftirlifandi maki ekki fengið að sitja í óskiptu búi eins og annars er hægt þegar aðilar eru í hjúskap. Aðstæðurnar geta því orðið þannig að eftirlifandi sambúðarmaki standi uppi í mjög erfiðri aðstöðu gagnvart erfingjum hins skammlífari.
Þegar kemur að skiptingu eigna við slit hjúskapar gildir svokölluð helmingaskiptaregla en hún felur í sér að hvor aðilinn fær helming nettó hjúskapareignar við fjárskiptin. Þessi regla gildir ekki við slit á sambúð en undir þeim kringumstæðum tekur hvor sambúðaraðilinn það sem hann átti þegar stofnað var til sambúðarinnar eða eignaðist meðan á henni stóð. Þannig skiptir formleg eignaskráning miklu, þ.e. hvernig skráningu og eignarhlutfalli er háttað í þinglýsingabókum vegna fasteigna og svo framvegis. Undir sérstökum kringumstæðum getur sambúðaraðili fengið viðurkenndan rétt til hlutdeildar í þeirri eignamyndun sem orðið hefur á fasteign á sambúðartímanum sé hann ekki þinglýstur eigandi fasteignar.
Ef til staðar er ágreiningur um eignaskipti við slit sambúðar getur annar aðilinn eða báðir krafist opinberra skipta til fjárslita á milli þeirra. Til þess að það sé heimilt verður sambúðin að hafa varað í að minnsta kosti tvö ár eða aðilar hafi eignast barn eða konan sé þunguð ef sambúð hefur varað í skemmri tíma.
Hægt er að gera ráðstafanir t.d. með erfðaskrá til þess að jafna réttarstöðu sína ef aðilar kjósa að vera einungis í skráðri sambúð en ekki í hjúskap. Hafðu samband á netfangið jonina@velferdlegal.is eða síma 899-1777 og ég aðstoða þig við að tryggja réttindi þín/ykkar.