top of page

Þögn er EKKI sama og samþykki!


Í mars síðastliðnum voru á Alþingi samþykktar breytingar á nauðungarákvæði almennra hegningarlaga, þ.e. ákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna. Þessar breytingar hafa mögulega farið framhjá einhverjum en með þeim er verið að auka áherslu á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga með því að skilgreina nauðgun út frá því hvort að samþykki liggi fyrir eða ekki.


Fyrir lagabreytinguna var í lagaákvæðinu tilgreindar aðferðir sem taka til atvika þar sem samræði eða önnur kynmök fara fram án vilja og samþykkis þolandans, þ.e. að beita þolandann ofbeldi, hótunum eða annarskonar ólögmætri nauðung.


Rannsóknir hafa leitt í ljós að mjög algengt er að þolendur nauðganna geta oft á tíðum ekki veitt gerandanum mótspyrnu þar sem þeir lamast af hræðslu eða frjósa og þarf því gerandinn ekki að beita miklu líkamlegu afli til að fá fram vilja sinn.


Í ljósi breyttra viðhorfa, aukinnar samfélagslegrar umræði og þekkingu á eðli og afleiðinga kynferðisbrota þótti mikilvægt að gera beytingar á nauðgunarákvæðinu í þeim tilgangi að tryggja sjálfsákvörðunarrétt og kynfrelsi einstaklinga. Lögunum var því breytt á þann hátt að nú er orðið algjört skilyrði fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum að samþykki, fengið af fúsum og frjálsum vilja, liggi fyrir. Samþykkið verður að vera tjáð með orðum eða annari ótvíðræðri tjáningu, t.d. með því að taka virkan þátt í tiltekinn athöfn. Ekki er þörf á því að þolandinn mótmæli sérstaklega eða sýni móttstöðu gagnvart þátttöku í kynferðislegri athöfn og algert athafnaleysi er EKKI hægt að túlka sem vilja til þátttöku.

Samþykki er ekki talið liggja fyrir ef það er fengið fram með ofbeldi, hótunum eða annarskonar ólögmætri nauðung eða með því að gerandinn beiti blekkingum eða hagnýtir sér villu þolandans um aðstæður.


Eins og áður hefur verið er talið eðlilegt að þátttakandi í kynferðislegri athöfn geti á hvaða tímapunkti sem er skipt um skoðun um þátttöku sína í athöfninni. Slík skoðanaskipti er þó mikilvægt að tjá með orðum eða annarri tjáningu þannig að aðrir þátttakendur geri sér grein fyrir viðhorfsbreytingunni og geti þar með látið af háttsemi sinni.


Með lagabreytinginni er ekki verið að breyta 2. gr. laganna þar sem það er einnig talið nauðgun ef einhver notfærir sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig sé ástatt um hann að öðru leyti að hann geti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Ljóst er að einstaklingur sem svo er komið fyrir getur ekki veitt samþykki sitt eða skilið þýðingu þess og samþykki hans því þýðingarlaust.


Árið 2013 var framleidd stuttmynd sem sýnd var í grunn- og framhaldsskólum landins um kynlíf með og án samþykkis. Myndina má finna á heimasíðu stjórnarráðsins á þessari netslóð: https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/malefni-barna/ofbeldi-gegn-bornum-fraedsluefni/fadu-ja/


Efni myndarinnar er gott innleg í þennan pisti um mikilvægi samþykkis fyrir samræði og öðrum kynferðislegum athöfnum og á titill hennar afar vel við umfjöllunarefnið og allir ættu að hafa að leiðarljósi: „Fáðu já!“ Þá er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að þögn er EKKI sama og samþykki!

bottom of page