- jonina59
Að feðra barn

Ef til vill hafa einhverjar mæður fengið sent bréf frá Þjóðskrá um það bil þegar barnið þeirra er sex mánaða þar sem fram kemur að barnið sé ófeðrað og skorað á þær að feðra barnið hið fyrsta. Mögulega hefur þetta komið flatt upp á einhverja sem þegar hafa talið sig hafa feðrað barnið. En hvaða reglur gilda um feðrun barns og hvað er hægt að gera ef faðir neitar að gangast við faðerni barnsins?
Þegar barn fæðist fer það eftir skráningu hjúskaparstöðu móður í þjóðskrá hvernig fer með feðrun barnsins. Ef móðir er í hjúskap eða skráðri sambúð með manni telst sá maður sjálfkrafa faðir barnsins og eiginleg faðernisviðurkenning þarf ekki að fara fram. Það sama gildir ef barn fæðist svo skömmu eftir hjúskaparslit að það sé hugsanlega getið í hjúskap svo fremur sem móðir giftist eða skráir sambúð sína í þjóðskrá með öðrum manni fyrir fæðingu barns. Þá telst sá aðili faðir barnsins.
Í þeim tilfellum þegar móðir er ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þarf að fara fram faðernisviðurkenning barnsins hjá sýslumanni eða fyrir dómstólum. Það er ekki nægjanlegt að faðir barns sé skráður í fæðingaskýrslu barnsins heldur þarf alltaf að fara fram þessi staðfesting hjá sýslumanni.
Þegar sá maður sem kona lýsir föður gengst við faðerninu er málið afgreitt með undirritun föður á yfirlýsingu sem finna má á heimasíðunni www.syslumenn.is Gæta þarf á því að undirritun fari annað hvort fram hjá fulltrúa sýslumanns eða fá tvo votta til þess að staðfesta hana.
Ef sá aðili sem móðir lýsir föður barnsins neitar að gangast við barninu vísar sýslumaður málinu frá embættinu. Þá þarf að höfða mál til viðurkenningar á faðerni barnsins fyrir dómstólum. Ef slíkt mál er höfðað í nafni barnsins greiðir ríkissjóður kostnað vegna málsins, þar með talið kostnað vegna vinnu lögmanns sem og kostnað vega DNA rannsóknar sem gera þarf til að staðfesta faðerni.
Í þeim tilfellum þegar fleiri en einn aðili kemur til greina sem faðir barnsins þarf að leysa úr því máli fyrir dómi, þar með talið með öflun DNA rannsóknar.
Ef lýstur faðir er látinn þegar barnið kemur í heiminn þarf að höfða mál fyrir dómstólum á hendur erfingjum hins lýsta föður (börnum hans eða foreldrum) þar sem farið er fram á viðurkenningu á faðerni barnsins. Niðurstaða í slíku faðernismáli fæst þá með því að taka lífsýni úr systkinum barnsins eða foreldrum föður og bera þau saman við lífsýni barnsins.
Á undanförnum árum hefur það aukist að einhleypar konur fari í tæknifrjóvgun. Þegar barn er getið undir slíkum kringumstæðum þarf ekki að feðra barnið.
Lögmaður Velferðar hefur mikla reynslu í faðernismálum sem og öðrum sifjamálum. Við hvetjum þá sem standa frammi fyrir því að þurfa að feðra barn fyrir dómstólum að hafa samband í síma 899-1777 eða á netfangið jonina@velferdlog.is ef þið viljið frekari upplýsingar eða aðstoð við faðernismál.