top of page
  • Writer's pictureJónína Guðmundsdóttir

Að takast á við tímabil


Öll börn, allir unglingar, allir fullorðnir og allir eldri borgarar...sem sagt hver einn og einasti einstaklingur gengur í gegnum mörg tímabil í lífinu. Í fræðunum er talað um lífsskeið og margar kenningar hafa verið settar fram um hvert skeið fyrir sig. Hægt er að nota margar af þessum kenningum til að máta einstaklinga inn í fræðilegar útskýringar á til dæmis hegðunarbreytingum unglinga.


Það er mikilvægt fyrir uppalendur að átta sig á hvaða tímabili börnin þeirra eru stödd á. Bæði vegna þess að hegðun þeirra og líðan getur átt sér líffræðilegar skýringar og staðfesta þar með að barnið er ekki gallað eintak og líka vegna þess að það hjálpar uppalendum að styðja barnið sitt í gegnum tímabilið.

Tímabilin eru ólík og þeir foreldrar sem eiga fleiri en eitt barn geta eflaust séð ákveðin tímabil sem börnin þeirra gengu í gegnum, en þó jafnvel á sinn hvort háttinn. Til dæmis er vælutímabilið þekkt hjá flestum börnum, frekjutímabilið þegar sjálfstæðisbaráttan stendur sem hæst, fýlutímablið þegar allt er leiðinlegt, tímabilið þegar unglingurinn á erfitt með að sjást með mömmu sinni af því að hún er svo hallærisleg, tímabilið þegar áhuginn á tómstundum skyndilega hverfur, tímabilið þegar systkinunum kemur alls ekki saman...


Foreldrar sem leggja sig fram við að sjá og skilja hvaða tímabil barnið er að ganga í gegnum eru færari til að styðja barnið í gegnum tímabilið þannig að barnið hljóti þroska og lærdóm af tímabilinu. Þegar barnið gengur í gegnum það tímabil að það hvorki þekkir né skilur tilfinningar sínar, sem gerist nokkru sinnum á ævinni, þá er það hlutverk foreldranna að aðstoða barnið, útskýra, finna leiðir og styðja. Þegar foreldri bregst við fýlutímabilinu með hótunum um hvað gerist ef barnið hættir ekki þessari bölvaðri fýlu er það ekki að hjálpa barninu að breyta fýluhegðun sinni. Þegar foreldri bregst við frekju, væli eða hroka með hótunum eða úrslitakostum er eingöngu verið að byggja uppeldið á ótta. Barnið þarf að skilja hvaða hegðun það er að sýna, foreldri þarf að gefa sér tíma til að útskýra, spyrja barnið og ræða um líðan þess. "Hvernig líður þér þegar þú ert í fýlu“, „finnst þér það hjálpa þér að sýna mér dónaskap“, „hvernig myndir þú vilja hafa þetta öðruvísi“, „hvernig getum við leyst þetta saman“!


Það er ekki spurningin um hvort við komumst í gegnum tímabilin í lífinu heldur hvernig við tökumst á við þau. Hvert og eitt tímabil er áskorun en um leið tækifæri til að læra á okkur sjálf og móta gildi okkar. Það að vera foreldri er ekki tímabil heldur eilífðarverkefni sem inniheldur mörg skemmtileg en oft krefjandi og erfið tímabil.

bottom of page