top of page

Af hverju ættir þú að gera erfðaskrá?

Updated: Jan 20, 2022


Margir hafa ef til vill velt fyrir sér af hverju fólk geri yfir höfuð erfðaskrá. Á því eru ýmsar skýringar en mjög margir eru í þeirri stöðu að þeir ættu einmitt að tryggja rétt sinn og annarra með því að gera erfðaskrá.


Erfðaskrá er skriflegt og formbundið skjal sem allir þeir sem orðnir eru 18 ára gamlir og andlega heilir heilsu geta gert til þess að ráðstafa eignum sínum eftir andlát. Strangar reglur gilda um form og vottun erfðaskráa og kunna erfðaskrár að vera metnar ógildar ef ekki er farið eftir settum reglum. Hægt er að breyta erfðaskrá eða auka við hana síðar, en engu að síður þarf að fylgja sömu reglum um form og vottun.


Lögerfingjar teljast maki, börn og aðrir niðjar, foreldrar, systkini, föðurforeldrar og móðurforeldrar og börn þeirra. Skylduerfingjar eru maki og börn hins látna.


Eigi maður ekki skylduerfingja, það er maka eða niðja á lífi, getur sá hinn sami ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá en þegar skylduerfingjar eru til staðar er einungis hægt að ráðstafa 1/3 hluta eigna sinna með þeim hætti. Það er því aldrei hægt að gera skylduerfingja með öllu arflausan.


Í þeim tilfellum þegar einstaklingur á hvorki skylduerfingja né lögerfingja renna eignir hans til ríkissjóðs að honum látnum. Sé vilji til staðar hjá einstaklingi, sem ekki á skylduerfingja né lögerfingja, til að ráðstafa eignum sínum með ákveðnum hætti að sér látnum þá yrði það að gerast með erfðaskrá. Þannig gæti viðkomandi arfleitt ákveðin einstakling, félagasamtök eða stofnanir að eigum sínum að hluta eða öllu leyti.


Fóstur- og stjúpbörn taka ekki arf eftir fóstur- eða stjúpforeldri. Með erfðaskrá er þó hægt að tryggja slíkan erfðarétt.


Einungis fólk sem er í hjúskap getur setið í óskiptu búi, ekki sambúðarfólk. Ef hinn látni átti börn sem ekki eru börn eftirlifandi maka þarf samþykki þeirra til þess að eftirlifandi maki geti setið í óskiptu búi. Slíkt samþykki þarf ekki þegar um er að ræða sameiginleg börn. Með erfðaskrá geta einstaklingar í hjúskap tryggt eftirlifandi maka heimild til setu í óskiptu búi og þarf því ekki samþykki barna hins látna þegar um er að ræða börn af fyrra sambandi.


Aðilar sem eru einungis í sambúð, hvort sem hún er skráð eða óskráð, búin að vara stutt eða lengi, hafa ekki gagnkvæman erfðarétt. Falli annar aðilinn frá fara allar eignir til barna hans, ef þau eru til staðar, en annars til lögerfingja eða ríkisins hafi ekki verið til staðar erfðaskrá. Með erfðaskrá geta sambúðaraðilar tryggt sér gagnkvæman erfðarétt og þannig ánafnað hvort öðru allt að 1/3 hluta eigna sinna ef börn eru til staðar eða öllum ef engin börn eru til staðar.


Við hvetjum alla til að tryggja rétt sinn sem best til að koma í veg fyrir óþægindi og erfiðleika þegar maki fellur frá. Hafið endilega samband í síma 899-1777 eða á netfangið jonina@velferdlog.is ef þið viljið aðstoð við að útbúa erfðaskrá.

bottom of page