top of page
  • Writer's pictureJónína Guðmundsdóttir

Afbrot barna


Á Íslandi er sakhæfisaldur miðaður við 15 ár. Það þýðir að ef börn á aldrinum 15-18 ára brjóta af sér lúta þau sömu lögmálum og fullorðnir þegar kemur að meðferð máls hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Íslendingar standa framar mörgum þjóðum í þessum málum þar sem dæmi er um að farið sé með afbrot ungra barna, undir 15 ára, á sama hátt og fullorðinna. Deila má um það hvort miða eigi sakhæfisaldur við 15 ár eða annan aldur en eitt er víst að börn eru börn og eiga rétt og bera skyldur sem slík.


Ýmis ákvæði eru til staðar sem kveða á um sérstaka meðferð mála barna 15-18 ára í refsivörslukerfinu. Þannig ber dómurum að taka sérstakt tillit til aldurs við ákvörðun refsingar og sjaldnast eru börn á þessum aldri dæmd til fangelsisrefsingar þó einhver dæmi séu um slíkt í alvarlegustu brotunum eða þegar um er að ræða ítrekuð brot.


Um börn sem fremja afbrot og eru yngri en 15 ára gilda aðrar reglur. Í slíkum tilfellum er barnið ekki sakhæft og því ekki ákært og dæmt í málinu en engu að síður er málið rannsakað hjá lögreglu. Ef gerandi er ósakhæfur sökum aldurs getur tjónþoli engu að síður sótt bætur til sérstakrar nefndar á vegum ríkisins sem fjallar um bætur til þolanda tiltekinna afbrota.


Barnavernd hefur alltaf aðkomu að málum þar sem börn undir 18 ára eru gerendur og fer málið í vinnslu hjá þeim í samræmi við eðli og alvarleika brotsins. Barnavernd hefur ýmis úrræða við úrvinnslu slíkra mála , meðal annars að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og afbrota og neyðarvistun á stofunum á vegum barnaverndar þegar það á við.


Ef nauðsynlegt er að yfirheyra barn undir 15 ára, hvort sem það er sem sakborningur eða vitni, er fulltrúi barnaverndar alltaf viðstaddur. Foreldrar mega jafnframt vera viðstaddir skýrslutöku nema hagsmunir barnsins eða rannsóknarhagsmunir standi því í vegi t.d. þegar að foreldri er mögulega vitni. Barnið fær einnig tilnefndan verjanda til að gæta hagsmuna þess við rannsókn málsins og er hann viðstaddur skýrslutökuna ásamt fulltrúa barnaverndar.


Þó barn sé ósakhæft getur það borið bótaábyrgð á tjóni sem það veldur t.d. þegar um er að ræða eignaspjöll. Þegar bótaábyrgð er metinn er ekki miðað við ákveðinn aldur heldur hvort barn á sama aldri og tjónvaldur hefði skilið að hegðun sín væri hættuleg eða líkleg til að valda tjóni. Þannig hafa börn allt niður í 10 ára gömul verið talin bótaskyld. Fjölskyldutryggingar ná oft yfir tjón sem börn valda og bæta tjónið en þó ekki ef það er unnið af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.


Mikilvægt er að huga vel að réttindum barna sem leiðast út í það að fremja afbrot, tryggja réttláta málsmeðferð þeirra í refsivörslukerfinu sem og hjá barnavernd en ekki síður að vinna markvisst að fyrirbyggjandi þáttum og þannig koma í veg fyrir að þau brjóti af sér aftur. Það hefur sýnt sig að markvissar forvarnir eru í flestum tilfellum lang besta leiðin til þess að koma í veg fyrir afbrot barna.

bottom of page