top of page
  • Jónína Guðmundsdóttir

Birting upplýsinga og mynda af börnum á samfélagsmiðlum


Í kjölfar þess að samfélagsmiðlar eins og Facebook, Snapchat og Instagram litu dagsins ljós hafa sífellt vaknað upp ný álitaefni tengd þeim. Eitt þeirra er hvenær foreldrar eða aðrir megi birta myndir eða upplýsingar um börn á samfélagsmiðlum.


Hvergi í lögum er að finna blátt bann við því að birtar séu upplýsingar eða myndir af börnunum á samfélagsmiðlum, svo framarlega sem ekki sé um að ræða myndir/upplýsingar sem eru ærumeiðandi eða beinlínis skaðlegar barninu verði þær opinberaðar. Þó þarf ávallt að fara eftir persónuverndarlögum sérstaklega ef hægt er að greina einstakling/barn á mynd eða myndbandi.


Börnum er til jafns við fullorðna tryggður réttur til friðhelgi einkalífs í stjórnarskránni og njóta þau í ríkara mæli aukinna réttinda til að taka sjálf ákvarðanir um eigið líf. Á sama hátt bera foreldrar/forsjáraðilar ábyrgð á velferð barna sinna og ber þeim í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og barnalaga að taka ákvarðanir með það að leiðarljósi hvað sé barninu fyrir bestu.


Mikilvægt er að hafa í huga að allt það sem sett er á internetið eru opinber gögn sem mögulega eru sýnileg hverjum sem er. Þannig getur hver sem er vistað þær hjá sér og mögulega dreift áfram í annarlegum tilgangi og myndin/upplýsingarnar því fylgt barninu til frambúðar.


Sérstaklega er mikilvægt að foreldrar og aðrir sem birta myndir eða upplýsingar um börn fari varlega og gæti að réttindum og hagsmunum barnanna. Leitast skal við að fá samþykki barnanna fyrir myndbirtingu eða birtingu upplýsinga um þau í samræmi við aldur þeirra og þroska. Ef barn leggst eindregið gegn birtingu upplýsinga/mynda á samfélagsmiðlum ætti ávallt að fara að vilja þess, ella er verið að brjóta gegn grundvallarréttindum barnsins.

Sem dæmi um upplýsingar sem leitast ætti við að fá samþykki barns eða mögulega ekki birta eru upplýsingar um einkunnir, heilsufar eða myndir sem flokkast geta sem viðkvæmar eða t.d. myndir af barni fáklæddu eða í baði.


Eins er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn gæti á sama hátt að því hvaða upplýsingar eða myndir börnin birta sjálf af sér á netinu og bregðist við þegar upplýsingarnar/myndirnar geta stefnt velferð barnsins í hættu. Mikilvægt er að hafa í huga að það sem sett er á internetnið má finna síðar og getur haft áhrif á líf viðkomandi einstaklings til framtíðar.


Með aukinni notkun samfélagsmiðla hafa dagforeldrar, leikskólar og skólar farið að nota þá miðla til að koma upplýsingum um námið á framfæri til foreldra. Ekki er heimilt að birta myndir á samfélagsmiðlum af börnum í skóla eða tómstundastarfi eða annarskonar persónugreinandi upplýsingum nema foreldrar hafi veitt samþykki fyrir því.


Óeðlilegar myndbirtingar eða birtingu viðkvæmar ærumeiðandi persónuupplýsinga er hægt að kæra til lögreglu. Þá er hægt að beina kvörtun til persónuverndar ef myndbirting fer gegn ákvæðum persónulega.


Verum vakandi yfir því hvað við setjum á netið!


bottom of page