top of page
  • Writer's pictureJónína Guðmundsdóttir

Ert þú með málskostnaðartryggingu eða áttu rétt á gjafsókn?


Það að reka einkamál eða þurfa að verjast málsókn fyrir dómstólum getur verið mjög kostnaðarsamt. Í raun svo kostnaðarsamt að margir veigra sér við því að sækja skýran rétt sinn eða gæta hagsmuna sinna af þeirri einu ástæðu að þeir treysta sér ekki til að greiða málskostnaðinn. Gjafsókn og málskostnaðartryggin er eitthvað sem margir þekkja eflaust ekki en þessu tvö úrræði geta oft á tíðum gert einstaklingum kleyft að standa straum af málskostnaði í einkamálum.


Gjafsókn fellst í því að ríkið greiðir fyrir dæmdan málskostnað sem gjafsóknarhafi ætti annars að greiða, þ.e. þóknun lögmanns og í sumum tilfellum öflun dómkvaddra matsmanna. Gjafsókn á bæði við um mál sem gjafsóknarhafi höfðar sjálfur og þau mál sem hann þarf að verjast. Skilyrði er að málið sé rekið fyrir íslenskum dómstólum og á þá einungis um þann kostnað sem fellur til vegna málshöfðunar og málareksturs fyrir dómi. Þó svo að einstaklingur fái gjafsókn getur hann þó verið dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað en sá kostnaður fellur ekki undir gjafsóknina.


Til þess að eiga rétt á gjafsókn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði: að efnahagur umsækjanda sé með þeim hætti að fyrirsjáanlegur málskostnaður yrði honum ofviða, að nægilegt tilefni sé til málshöfðunar eða málsvarnar og að eðlilegt verði talið að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Við mat á því hvort fyrirsjáanlegur málskostnaður verði einstaklingi ofviða er horft til ákveðinna viðmiðunarmarka hvað varðar tekjur og framfærslu.


Gjafsókn er að jafnaði ekki veitt í málum sem tengjast atvinnustarfsemi umsækjanda, ágreiningsefnið er á milli nákominna, hagsmunir eru óverulegir og ekki eðlilegt hlutfall milli þeirra og líklegs málskostnaðar og þegar umsækjandi hefur sýnt af sér verulegt tómlæti sem hefur í för með sér erfiðleika hvað varðar sönnun í málinu. Þrátt fyrir framangreint hafa einstaklingar oft fengið gjafsókn, að öllu leiti eða hluta, í málum sem varðar ágreining um forsjá barna þó svo að það teljist mál milli nákominna. Eins hefur gjafsókn verið veitt að hluta þegar tekjur eru yfir viðmiðunarmörkum. Sækja þarf sérstaklega um gjafsókn og skila inn gögnum um fjárhag o.fl. Umsóknin er síðan metin og tekur gjafsóknarnefnd afstöðu til þess hvort gjafsókn sé samþykkt eða synjað.


Það sem margir vita ekki er að í sumum tilfellum eru einstaklingar með svokallaða málskostnaðartryggingu inn í heimilistryggingunni sinni. Málskostnaðartrygging, sem einnig gengur undir heitinu réttaraðstoðartryggingu, greiðir málskostnað vátryggingarhafa vegna ágreining í einkamálum sem rekin eru fyrir héraðsdómi, Landsrétti eða Hæstarétti. Undir málskostnaðartryggingu fellur kostnaður vegna vinnu lögmanns, kostnaður við að afla álitsgerða eða dómkveðja matsmenn, kostnað við að greiðslu vitna, réttargjöld og málskostnað sem vátryggður er dæmdur eða úrskurðaður til að greiða gagnaðila af dómstól við lok máls. Tilkynna þarf tryggingarfélagi þegar tryggingarhafi hyggst nýta sér málskostnaðartrygginguna og tekur félagið þá afstöðu til þess hvort það sé samþykkt eða ekki.


Málskostnaðartrygging er innifalin í flestum heimilistryggingum og því getur það sparað fólki mikla fjármuni að kanna tryggingarnar sínar áður til málshöfðunar kemur. Það fer allt eftir því hverskonar tryggingu þú ert með og hjá hvaða tryggingarfélagi hversu víðtæk tryggingin er og hversu há eigin áhætta þín mun vera. Með því að nýta málskostnaðartryggingu getur þú sparað þér allt að 80-90% af málskostnaði.


Tryggingarfélögin eru öll með einhverja málaflokka undanþegna frá tryggingunni, t.d. mál sem varðar atvinnu tryggingartaka, ábyrgð sem hann hefur geinst við, sambúðarslita eða hjónaskilnaðar. Önnur mál sem eru undanskilin í málskostnaðartryggingum eru talin upp í skilmálum viðkomandi tryggingarfélaga.


Það er mikilvægt að kanna vel hvort þú eigir rétt á gjafsókn eða sért með málskostnaðartyggingu innifalda í heimilistryggingunni þinni ef þú stendur frammi fyrir því að þurfa að höfða mál fyrir dómstólum eða verjast málsókn.


Recent Posts

See All
bottom of page