Forsjá barna við andlát foreldris

Margir hafa ef til vill velt því fyrir sér hvað verður um forsjá barna þeirra komi til þess að þeir falli frá áður börnin nái 18 ára aldri.
Ef foreldri er í hjúskap eða sambúð með barnsforeldri sínu fer forsjá barnsins sjálfkrafa til eftirlifandi foreldris. Þetta á jafnframt við ef aðilar eru ekki í sambúð en fara engu að síður með sameiginlega forsjá barnsins.
Ef forsjá barns er alfarið í höndum þess foreldris sem fellur frá flyst forsjá barnsins sjálfkrafa til forsjárlauss kynforeldris nema að gerður hafi verið samning um sameiginlega forsjá barnsins við stjúpforeldri fyrir andlátið. Í þeim tilfellum helst forsjá barnsins sjálfkrafa hjá stjúpforeldrinu en flyst ekki yfir til kynforeldris.
Ef barn verður forsjárlaust vegna andlát annars eða beggja forsjárforeldra færist forsjá barnsins til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi sem barnið er með skráð lögheimili.
Rétt er að það komi fram að framangreindar reglur eru meginreglur en einnig er hægt með samningi eða dómi að fela öðrum forsjá barns sé það talið barninu fyrir bestu. Þannig getur forsjárlaust foreldri óskað eftir forsjá barnsins hafi hún sjálfkrafa fallið til stjúpforeldris við andlát forsjárforeldris. Úr slíku er annað hvort ráðið með samningi eða með úrlausn dómstóla út frá hagsmunum barnsins.
Forsjárforeldri geta með skriflegri og staðfestri yfirlýsingu lýst yfir vilja sínum til þess hver fari með forsjá barns þeirra við andlát þeirra. Ávalt er farið eftir vilja samkvæmt slíkir yfirlýsingu nema það sé beinlínis andstætt hagsmunum barnsins. Mikilvægt er að yfirlýsing forsjárforeldris sé rétt gerð, nægilega skýr og vottuð með fullnægjandi hætti.
Við hvetjum þá sem hafa sérstakar óskir um forsjá barna sinna við andlát sitt að gera viðeigandi ráðstafanir, annað hvort með samningi um sameiginlegri forsjá með stjúpforeldri, sem gert er hjá sýslumanni, eða með yfirlýsingu forsjárforeldris. Hafið endilega samband í síma 899-1777 eða á netfangið jonina@velferdlegal.is ef þið viljið frekari upplýsingar eða aðstoð við að ganga frá yfirlýsingu forsjárforeldris.