Jónína Guðmundsdóttir
Kynferðisleg áreitni

Undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning, aukin fræðsla og umræða í þjóðfélaginu hvað varðar kynferðisbrot, kynferðislega áreitni og mismunun á grundvelli kynferðis. Öllum framförum ber að fagna en ekki má leggja árar í bát og halda að maður berist áfram án frekari athafna. Mikilvægt er að halda áfram fræðslu og forvörnum og jafnframt er mikilvægt að samfélagið geri sér grein fyrir því að kynferðisbrot, kynferðisleg áreitni og mismunun á grundvelli kynferðis þrífst enn þrátt fyrir að komið sé árið 2021.
Í nútíma samfélagi komast börn og ungmenni á auðveldan hátt yfir efni á samfélagsmiðlum og veraldarvefnum sem sýnir kynferðislegar athafnir og hegðun sem margar hverjar gefa ekki rétta mynd af heilbrigðum kynferðislegum athöfnum á milli tveggja samþykkra einstaklinga. Þá hafa brotum er varðar kynferðislega áreitni gagnvart unglingum og ungmennum aukist verulega og má að einhverju leyti tengja það við aukna notkun samfélagsmiðla eins og Snapchat, Facebook og Instagram.
Fjölmörg mál eru rannsökuð af lögreglu ár hvert þar sem ungmennum eru sendar myndi án þeirra vilja sem sýna kynfæri eða kynferðislegar athafnir. Eins eru fjölmörg ungmenni sem láta til leiðast og senda myndir af kynfærum sínum eða brjóstum til aðila sem þeir treysta en lenda síðan í því að myndunum er dreift um veraldarvefinn án þeirra samþykkis. Fræðsla og forvarnir eru sterkasta aflið í að uppræta slík brot enda virðast margir hverjir ekki gera sér grein fyrir alvarleika einhvers sem þeir telja jafnvel vera „saklaust grín“ að hafa sent vinum sínum eina mynd sem þeir tóku skjáskot af stelpu sýna brjóstin á sér.
Kynferðisleg áreitni er þó eitthvað sem fer oft á tíðum mjög dult og margir hverjir gera sér ekki einu sinni grein fyrir því að þeir hafi orðið fyrir slíku broti. En hvað er kynferðisleg áreitni?
Skilgreining á hugtakinu kynferðisleg áreitni er ekki alltaf sú sama en í almennum hegningarlögum er hún skilgreind meðal annars sem „strokur, þukl eða káf á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan en jafnframt sem táknræn hegðun eða orðbragð sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“
Þessi kynferðislega hegðun er þá framkvæmt í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða áhrif á misbjóða virðingu viðkomandi. Ekki er skilyrði að hegðunin sem slík valdi ótta þolandans, enda erfitt að sanna slíkt, heldur er nægilegt að hún gæti eða sé til þess fallin að valda ótta.
Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, táknræn og í orði.
Líkamleg kynferðisleg áreitni fellst m.a. í því að káfa, rassskella, strokum eða kossum.
Táknræn kynferðisleg áreitni getur falist í óvelkomnum kynferðislegum augngotum eða annarri kynferðisleg hegðun, flaut á eftir einstaklingi eða að sýna eða senda kynferðislegt efni t.d. á samfélagsmiðlum eða tölvupósti. Jafnframt getur sú háttsemi að hengja upp plaköt eða dagatöl sem innihalda kynferðislegt efni talist flokkast sem kynferðisleg áreitni.
Orðbundin kynferðisleg áreitni felur til dæmis í sér þrýsting um kynferðislegan greiða, kynferðisleg stríðni eða grín, persónulegar spurningar um kynlíf, og kynferðislegar athugasemdir um klæðnað eða útlit einstaklings. Hér er aðallega verið að tala um stöðugt áreiti sem nálgast einelti frekar en einstaka athugasemd þrátt fyrir að hún geti verið verulega óviðeigandi.
Framangreind talning er ekki tæmandi heldur einungis nokkur dæmi um hversu víðtæk kynferðisleg áreitni getur verið.
Það getur talist kynferðisleg áreitni þó svo að þukl eða káf eigi sér stað utan klæða en þá þarf að fara í það að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvor tilgangurinn með snertingunni hafi verið kynferðislegur.
Staðreyndin er sú að konur verða frekar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar en engu að síður hefur málum er varðar kynferðislega áreitni í garð karla fjölgað undanfarin ár. Ýmsar starfsstéttir verða oftar fyrir kynferðislegri áreitni en aðrar og má þar nefna fólk í umönnunarstörfum, lögreglukonur, þjóna á veitingastöðum o.fl.
Kynferðisleg áreitni er refsiverð og getur varðað allt að tveggja ára fangelsisrefsingu. Einstaklingar sem telja sig hafa orðið fyrir einhverskonar kynferðislegri áreitni geta leitað til lögreglu og lagt fram kæru á hendur gerandanum. Lögreglan tilnefnir viðkomandi þá réttargæslumann sem aðstoðar brotaþolann við málsmeðferðina í gegnum réttarvörslukerfið og er m.a. viðstaddur skýrslutöku af brotaþolanum.
Við hjá Velferð störfum við réttargæslu einstaklinga sem hafa orðið fyrir brotum og getum aðstoða þig við að meta mál þitt og stöðu og koma kæru á framfæri við lögreglu.