top of page

„Kynferðislegur lögaldur“


Ég er nokkuð viss um að margir foreldrar gætu vel hugsað sér að ganga jafnvel svo langt að loka unglingana sína inni í þeirri veiku von að það sé hægt að koma í veg fyrir að þau byrji að stunda ótímabært kynlíf eða verði fyrir því að brotið sé gegn þeim kynferðislega. Allir foreldrar hljóta að vera sammála því að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf fyrr en hann er fullkomlega tilbúinn til þess, líkamlega og andlega, og geti gert sér grein fyrir afleiðingum af því að stunda kynlíf.


Í almennum hegningarlögum er að finna ákvæði sem ætlað er að vernda börn og unglinga fyrir kynferðislegri misnotkun. Þar kemur fram að hver sá sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 ár. Önnur kynferðismök eru til dæmis munnmök, endaþarmsmök og aðrar athafnir sem veita eða eru til þess fallnar að veita kynferðislega fullnægingu. Þá varðar önnur kynferðisleg áreitni gagnvart barni fangelsi allt að sex árum og er þá til dæmis verið að meina að strokur, þukl eða káf á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan.


Í sömu lögum er einnig að finna ákveðin viðmið sem horft hefur verið til sem hinn „kynferðislegi lögaldur“ þ.e. hvenær það teljist löglegt fyrir ungmenni að stunda kynlíf. Almennt er gert ráð fyrir því að eftir 15 ára aldur geta ungmenni stundað kynlíf með samþykki beggja aðila án þess að það sé refsivert. Miðað er við afmælisdag en ekki fæðingarár og því getur það verið refsivert að stunda kynmök með barni sem er 14 ára og 364 daga gamalt. Samþykkið verður að vera tjáð með orðum eða annarri ótvíræðri tjáningu, t.d. með því að taka virkan þátt í tiltekinn athöfn. Ekki er þörf á því að þolandinn mótmæli sérstaklega eða sýni mótstöðu gagnvart þátttöku í kynferðislegri athöfn og algert athafnaleysi er EKKI hægt að túlka sem vilja til þátttöku.


Á Íslandi er saknæmisaldurinn einnig miðaður við 15 ára aldur. Einstaklingur sem fremur afbrot eftir 15 ára aldur er því gerður ábyrgur fyrir hegðun sinni og látinn sæta þeim refsingum sem við brotinu eru. Á sama hátt og með hinn „kynferðislega lögaldur“ er miðaða við afmælisdaginn en ekki árið. Ungmenni sem er 14 ára og 364 daga gamallt verður því ekki dæmt fyrir brot sem það fremur en strax á 15 ára afmælisdaginn er það gert.


Af framangreindu er því ljóst að tvö 15 ára ungmenni geta stundað kynlíf saman, svo framarlega sem það sé með samþykki beggja, án þess að það sé refsivert. Sé annar einstaklingurinn yngri en 15 ára gamall og hinn eldri þá er hægt að sækja þann eldri til sakar fyrir kynferðisbrot, jafnvel þótt sé um að ræða ungmenni sem eru í föstu sambandi og kynmök eru stunduð með samþykki beggja aðila. Velta má því fyrir sér hvort refsa eigi yfir höfðu fyrir slíka háttsemi en engu að síður hafa ekki verið gerðar breytingar á hegningarlögunum sem taka tilliti til slíkra aðstæðna nema þá að í þeim tilfellum þegar gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.


Deila má um hvort að 15 ára gömul börn séu nægilega þroskuð til þess að stunda kynlíf en telja verður að barn undir 15 ára aldri hafi ekki náð þeim vitsmunaþroska og sjálfstrausti til þess að fara eftir eigin sannfæringu um kynlíf og því er miðað við þennan aldur í lögunum. Eldri og þroskaðri einstaklingar láta síður vaða með sig í aðstæður sem þeir kæra sig ekki um eða hafa stjórn á og jafnframt eru þeir færari um að setja mörk.

bottom of page