Svanhildur Olafsdottir
Máttur fjölskyldunnar

Það er óflýjanleg staðreynd að aukin tölvu-og símanotkun í nútímasamfélagi hefur skapað ný vandamál sem við, sem samfélag, ráðum ekkert sérstaklega vel við. Fullorðnir jafnt sem börn verja of miklum tíma við skjánotkun.
Víða á sér stað sú umræða að greiningum á börnum fari fjölgandi, „allir“ eru komnir með kvíðaröskun, þunglyndi og einangrast félagslega. Hegðunin versnar og hrokinn eykst, krafa er um viðbrögð innan skólakerfisins, um aukinn stuðning, meiri skilning, breyttar áherslur og mildari aðferðir. Tilvísunum til sálfræðinga fjölgar því einhver þarf jú að hjálpa börnunum.
Foreldrar leita í ofvæni eftir aðstoð, leggja von sína og trú á fagfólkið sem lært hefur um þessa hegðun og hvernig bregðast skuli við þessum vandamálum. Barnið fær greiningu sem kveðin er upp út frá einkennum og hegðun, ávísað er lyfjum sem slá á einkennin eða deyfa tilfinninguna og barnið fær úthlutuðum viðtalstímum hjá fagaðila sem hjálpar barninu að skilja hvað er að gerast hjá því.
En hvað er að gerast í umhverfi barnsins? Hvernig er samskiptum háttað á heimilinu, hvaða reglur eru settar og hvernig er þeim framfylgt, hvar liggja mörkin og eru þau nægilega skýr! Þessi þáttur í umhverfi barnsins er oft eitthvað sem má ekki ræða því þá er verið að „ráðast“ inn fyrir friðhelgi einkalífsins og engum kemur við hvað gerist innan veggja heimilisins. En þegar taka þarf á vanda barns er mikilvægt að skoða allt umhverfi þess og hvernig það spilar saman.
Þegar takast á við vanda sem kemur fram í tölvufíkn, kvíðaröskun, þunglyndiseinkennum eða félagsfælni þurfa fjölskyldur oft að fella hæstu varnarveggina og þiggja hjálp. Fjölskyldan þarf öll að vinna saman og að sama markmiðinu. Þess vegna hefur fjölskyldumeðferð verið eitt af viðurkenndu meðferðarúrræðunum við tölvufíkn, kvíða og/eða hegðunarvanda. Áhrifamáttur fjölskyldunnar er oft vanmetinn en þegar öllu er á botninn hvolft er valdið og lausnirnar hjá fjölskyldunni.