top of page
  • Writer's pictureSvanhildur Olafsdottir

Myndin í huganum


Ég veit ekki hversu oft ég hef lagt af stað inn í daginn með fallega mynd í huganum um hinn fullkomna fjölskyldudag. Mynd af fjölskyldunni allri saman, allir glaðir og kátir, krakkarnir allir góðir við hvert annað og svo innilega til í að gera allt það sem mömmu dettur í hug. Myndin er af fjölskyldunni í dagsferð, svona óvissu-dagsferð sem við köllum „förum eitthvað og gerum eitthvað“. Samveran er það sem ég sækist eftir, að hafa krakkana með í heilan dag án allra samskiptamiðla eða annarar truflunar frá skjátækjum. Svo falleg mynd!


Þegar ég kalla svo krakkana fram úr herbergjunum sínum verða fyrstu vonbrigðin. Þeim fannst þetta ekki jafn frábær hugmynd og mér. Þau eru ekki svo innilega til í að gera allt sem mömmu dettur í hug og þau eru ekki að nenna þessu. Mótmælin byrja....“þarf ég að fara með“, „hvað erum við að fara að gera“. Fýlan lekur af þeim og mest af öllu vilja þau skríða aftur inn í hellinn sinn og hverfa aftur inn í snjalltækið sitt.


Þvermóðskan eflist innan í mér og ég tek GÆS á þetta...ég get neytt þau að koma með mér, ég ætla að fara með þau í þessa dagsferð og það skal vera gaman! Í offorsi slekk ég á netinu, tek af þeim símana og segi: „Já þið þurfið að fara með, drífið ykkur í föt og af stað út í bíl“. Ég er orðin pirruð og hundfúl að þau hafi ekki tekið vel í hugmyndina mína, að þau hafi ekki verið jafn mikið til í þetta og ég.


Andrúmsloftið í bílnum er spennuþrungið. Það segir enginn neitt, það horfa allir út um gluggann og augabrúnirnar eru frekar þungar. Í huganum fer ég yfir stöðuna, var það rétt af mér að neyða þau með í þessa ferð, á ég að leyfa þeim að eyðileggja daginn fyrir mér...þetta var allavega svo sannanlega ekki myndin sem ég hafði í huganum.


Förum eitthvað og gerum eitthvað dagarnir okkar byrja iðulega svona en þeir enda alltaf á að myndin í huganum er framkölluð og hjartað okkar er yfirfullt af gleði, dagurinn hefur verið frábær og löngunin til að eiga fleiri svona daga er ofar öllu. Hún er þó fljót að gleymast og næst þegar myndin kemur upp í hugann þá hefst baráttan á ný.


Oft hef ég velt því fyrir mér og rætt það við krakkana hvort þeir vilji að ég neyði þau að koma með eða hvort þeir vilji hafa val og þeir koma bara með þeir sem vilja. Svarið er að þau vilja vera „neydd“ til að koma með en þau þurfa bara smá tíma til að muna að það er gaman að vera með fjölskyldunni.


Stundum þarf að „neyða“ krakkana til að eiga samverustund með fjölskyldunni og framkalla fallegu myndina í huganum.

bottom of page