Ofbeldi gegn börnum

Því miður er það staðreynd að fjöldi barna verður fyrir ofbeldi á hverjum degi. Ofbeldi gegn barni er skilgreint sem „athöfn sem leiðir til eða er líkleg til að leiða til skaða á þroska barnsins.“ og geta birtingarmyndir þess verið fjölmargar og misjafnar hvort sem um er að ræða líkamlegt-, andlegt- eða kynferðislegt ofbeldi.
Flestir gera sér grein fyrir því hvað felst í líkamlegu ofbeldi gagnvart barni, þ.e. högg, löðrungar, spörk, klíp o.fl.
Kynferðislegt ofbeldi getur verið hrein og klár nauðgun, káf/snertingar og það að birta mynd af barni nöktu eða sýna því slíkt myndefni. Það sem margir átta sig þó ekki á er að klúrt orðbragð getur einnig flokkast sem kynferðislegt ofbeldi.
Andlegt ofbeldi er oftar en ekki mjög falið og í mörgum tilfellum meiri skaðvaldur en líkamlegt ofbeldi. Um er að ræða athafnir eins og að hafna barninu, einangra það, niðurlægja, hunsa, loka inni, hóta og neita um nauðsynjar. Öskur flokkast einnig sem andlegt ofbeldi sem og einelti.
Allt ofbeldi á heimilum þar sem börn eru eða ofbeldi í kringum börn, hvort sem það er líkamlegt-, andlegt- eða kynferðislegt, flokkast sem ofbeldi gegn barninu sjálfu þrátt fyrir að það beinist ekki beint gegn því heldur t.d. foreldri eða öðrum heimilismönnum.
Ofbeldi foreldra gegn börnum sínum er sérstaklega alvarlegt enda hafa foreldrar umönnunarskyldur gagnvart þeim og þannig skylt að vernda þau gegn hverskonar illri meðferð. Foreldrum er þó heimilt að beita vissum aga á börnin í uppeldisskyni en þó má aldrei beita líkamlegu- eða andlegu ofbeldi í uppeldistilgangi. Margir standa í þeirri trú að flengingar, öskur og niðurlægingar séu heimilar í uppeldisskyni en svo er raunin alls ekki.
Mörg fordæmi eru fyrir því að ákært og dæmt hafi verið fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum þar sem börn eru þolendur. Á undanförnum árum hafa refsingar verið að þyngjast og andlegt ofbeldi orðið viðurkenndara sem sjálfstætt brot. Þá hafa börnum verið dæmdar miskabætur fyrir allar tegundir af ofbeldi.
Börn eru eðli málsins samkvæmt varnarlaus í ofbeldisaðstæðum og eiga oft á tíðum erfitt með að láta vita af aðstæðum sínum og þannig komast út úr þeim. Allir vita að ofbeldi gegn börnum geta haft verulegar afleiðingar á heilsu, þroska og líðan þeirra allt fram á fullorðinsár. Áhrifin geta ekki einungis verið líkamleg heldur einnig geðræn og félagsleg og leitt til mikilla erfiðleika fyrir barnið.
Öllum sem gruna eða verða vitni af ofbeldi gegn barni eða vanrækslu er skylt að tilkynna það til lögreglu eða barnaverndaryfirvalda. Það flokkast undir vanrækslu að tilkynna ekki til yfirvalda búi viðkomandi yfir vitneskju um ofbeldi eða vanrækslu barns. Sá sem tilkynnir þarf í raun ekki að hafa beinar sannanir fyrir því að brotið sé gegn barninu heldur nægir grunur um slíkt eitt og sér. Tilkynningar geta verið undir nafnleynd kjósi tilkynnandi það.
Mikilvægt er að börn njóti vafans og fólk láti hagsmuni og framtíð þeirra sig varða. Ofbeldi gegn börnum kemur öllum við!