top of page
  • Writer's pictureJónína Guðmundsdóttir

Ráðstöfunarréttur barna og ungmenna á fjármunum sínum


Yfir sumarið eru mörg ungmenni að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum og fá þar af leiðandi greidd laun fyrir vinnuna. Mögulega hafa einhverjir foreldrar heyrt börnin sín halda því fram að þau ráði yfir peningunum sínum sjálf og megi ráðstafa þeim eins og þau vilji. Raunin er þó sú að ráðstöfunarréttur barna og ungmenna yfir fjármunum sínum er takmarkaður þar sem þau eru ófjárráða til 18 ára aldurs.

Foreldrar barns/ungmennis, eða öðrum sem falin hefur verið forsjá þess, fara með fjárhald þeirra samkvæmt lögræðislögum og bera ábyrgð á ráðstöfun fjármuna sem tilheyra barninu. Á forsjáraðilum hvílir sú skylda að varðveita fjármuni þeirra vel og gæta þess að þeir séu ávaxtaðar eins vel og hægt er. Samkvæmt barnalögum og Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna ber foreldrum þó að hafa samráð við börnin sín þegar kemur að ráðstöfun á fjármunum þeirra og jafnframt taka tillit til óska þeirra í samræmi við aldur og þroska. Á forsjáraðila hvílir jafnframt sú skylda að halda fjármunum barnsins aðskildum frá sínum eigin fjármunum.

Ákveðnar undantekningar eru til á þessum takmarkaða ráðstöfunarrétti barna á fjármunum sínum hvað varðar sjálfsala- og gjafafé og fjármuni sem forsjáraðili hefur látið barnið fá til ráðstöfunar.

Börn og ungmenni ráða sjálf yfir sjálfsaflafé sínu, þ.e. fjármunum sem þau vinna sér inn, og jafnframt fjármunum sem þau fá að gjöf, t.d. í afmælisgjafir. Þá ráða þau einnig yfir fjármunum sem forsjáraðili hefur látið þau hafa til ráðstöfunar. Foreldrar geta því ekki takmarkað ráðstöfunarrétt barna á þessum fjármunum en þeim ber þó almenn skylda til þess að leiðbeina þeim um réttar og rangar ákvarðanir eins og almennt er í lífinu.

Í þeim tilfellum þegar barn vinnur sér inn tiltölulega mikla fjármuni eða fær þá að gjöf, t.d. fermingargjöf, getur sýslumaður sem yfirlögráðandi heimilað forsjáraðila að taka fjármunina að nokkru eða öllu leyti úr vörslu barnsins til varðveislu. Það sama gildir í þeim tilfellum þegar barn fer illa með fé sitt. Sýslumaður metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort taka eigi fjármunina úr vörslu barnsins en slík ráðstöfun er alltaf byggð á mati á því hvað barninu er fyrir bestu.

Barn sem fær greiddar skaðabætur, t.d vegna umferðarslyss, hefur ekki ráðstöfunarrétt á þeim fjármunum fyrr en það öðlast fjárræði. Ber forsjáraðila skylda til að ávaxta bæturnar eins vel og hægt er fram að 18 ára aldri barnsins.

Óheimilt er að ráðstafa fjármunum barns til greiðslu á kostnaði af framfærslu þess eða námi án samþykkis sýslumanns og er slíkt samþykki einungis veitt í undantekningar tilvikum.

bottom of page