top of page
Search
  • jonina59

Sameiginleg forsjá


Sameiginleg forsjá barna er orðin að meginreglu við skilnað eða slit skráðrar sambúðar nema að annað sé ákveðið með samningi foreldra eða fyrir dómi. Þá geta foreldrar sem ekki fara með sameiginlega forsjá barns síns samið um slíkt forsjárfyrirkomulag, t.d. í þeim tilfellum sem foreldrar hafa aldrei búið saman. Sameiginleg forsjá þýðir ekki endilega að barn búi jafnt hjá báðum foreldrum enda er mikilvægt að halda aðgreindri umræðu um forsjá og umgengi. Sameiginleg forsjá vísar almennt til aukinnar ábyrgðar og þátttöku beggja foreldra í lífi barns en ekki til umfangs og eðli umgengni foreldra við barn.


Í barnalögum er fjallað um þýðingu þess að hafa sameiginlega forsjá en þar segir að í slíkum tilfellum beri foreldrum að taka sameiginlega allar meiriháttar ákvarðanir sem varða barnið. Lögheimilisforeldri hefur þó heimild til þess að taka minniháttar ákvarðanir um þarfir barnsins.


Meiriháttar ákvarðanir eru ekki skilgreindar í barnalögum en skýrt er þó kveðið á um að þegar að foreldrar fara með sameiginlega forsjá barns þá er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Þá eru í mörgum sérlögum ákvæði um samþykki beggja foreldra þurfi til ýmissa ráðstafana, m.a. samþykki fyrir vegabréfi, úrsögn úr trúfélagi, nafnabreytingu, læknismeðferð o.fl.


Minniháttar ákvarðanir eru taldar vera ákvarðanir um daglegt líf barnsins svo sem um lögheimili barns innanlands, val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulegri eða nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og tómstundastarf barnsins.


Mikilvægt er að foreldrar gæti þess að setja hagsmuni barna sinna í fyrirrúm og reyni að vinna að því standa saman að uppeldi barnsins með því að leggja ágreining sinn til hliðar og horfa á það sem barninu er fyrir bestu. Það er þó ekki alltaf hægt og undir vissum kringumstæðum er til staðar djúpstæður ágreiningur á milli foreldra við sambúðarslit eða skilnað sem leiðir til þess að ekki er hægt að standa saman að sameiginlegum ákvörðunum varðandi barnið.


Komi upp ágreiningur á milli foreldra um málefni barns eða einstakar ákvarðanir varðandi velferð þess getur það leitt til þess að foreldrar verði að slíta samningi sameiginlegri forsjá hafi hún þegar verið ákveðin. Hægt er að gera það hjá sýslumönnum ef að aðilar eru því samþykkir en annars þarf að leita til dómstóla eftir að búið er að reyna sáttameðferð hjá sýslumanni eða sjálfstætt starfandi sáttamanni.


Í þeim tilfellum þegar sambúðarslit eða hjónaskilnaður stendur fyrir dyrum og ekki næst samkomulag um forsjá barna fer málið í sama farveg, þ.e. höfða þarf mál fyrir dómstólum ef ekki næst sátt um það hjá sýslumanni.


Ef þér vantar aðstoð til þess að gæta hagsmuna þinna í forsjármáli þá hvetjum við þig til þess að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið jonina@velferdlog.is

17 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page