top of page

Spennandi starf...


Hugsum okkur sem svo að þú sért ráðin í draumastarfið þitt, spennan í maganum fyrstu mánuðina fyrir því að mæta í vinnuna er svo skemmtileg og þú hlakkar til að takast á við ný verkefni á hverjum degi. Samstarfsfólk þitt er frábært, það tekur tillit til þín, deilir áhugamálum með þér, nennir að hlusta á þig, hlær með þér og hrósar þér. Þér er falin ábyrgð í starfinu sem þú kannt vel við og tekur við henni með brosi á vör og sinnir starfi þínu af kostgæfni. Lífið er spennandi og skemmtilegt.


Þegar árin líða er þér farið að leiðast dálítið í starfinu þínu. Verkefnin sem þú hefur fengist við síðustu árin eru orðin hversdagsleg og ábyrgðin sem þér var falin er orðin meiri, flóknari og erfiðari. Samstarfsfólkið þitt er farið að hlusta af minni athygli, hláturinn er orðinn sjaldgæfari og gleðin á vinnustaðnum hefur dvínað. Starfsfólki hefur fjölgað og þú nærð misvel til þess sem verður til þess að starfsandinn verður stundum spennuþrunginn. Upp koma samskiptaárekstrar sem annað hvort er ekki tekið á eða þeir eru leystir án þess að allir séu sáttir.


Þú ferð að íhuga að segja upp starfinu þínu. Þér líður ekki vel, finnur ekki hamingju í starfinu og ert farin að horfa út fyrir vinnustaðinn.


............


Leiðum hugann að því að draumastarfið sem talað er um hér að ofan sé hjónabandið þitt. Ástin, spennan og lostinn sem á sér stað fyrstu mánuðina eða stundum lengur, er svo skemmtileg að það virðist engan endi geta tekið. Maki þinn hefur enga galla...og ef hann hefur einhverja þá eru þeir bara krúttlegir. Þið eruð sífellt að gera eitthvað nýtt og spennandi, ferðast, byrja að búa, fjárfesta, sinna áhugamálum, taka þátt í félagslífi, eignast börn...og þá breytist ýmislegt.


Leiði í hjónabandi á sér oft stað þegar hjónabandið er orðið hversdagslegt, þegar hjónabandið felur í sér litlar tilbreytingar og hjónin eru orðnir meiri samstarfsfélagar í fyrirtækinu „fjölskylda“ heldur en hjón sem elska hvort annað. Litlu hlutirnir sem áður þóttu svo sjálfsagðir að varla var tekið eftir þeim, hafa orðið undir og eru gleymdir. Þetta eru litlu hlutirnir sem allan tímann skiptu mestu máli því þeir halda neistanum vakandi. Að huga að hvort öðru og muna eftir öllu því sem í upphafi var svo spennandi og skemmtilegt, að halda áfram að hrósa, kyssast, knúsast, hlusta og gefa hvort öðru tíma.


Það er gömul tugga sem segir að hjónaband sé vinna, að það kosti stöðuga vinnu að viðhalda neistanum í hjónabandinu. En það er staðreynd að neistinn deyr út ef honum er ekki haldið vakandi.


bottom of page