top of page

Tilfinninga völundarhús

Mynd fengin á https://designdroide.com

Erfiðleikarnir sem þú glímir við í dag eru stórir og reynast þér erfiðir. Það koma dagar þar sem þér fallast hendur og þú grætur, eða þú missir stjórn á skapi þínu og segir jafnvel eitthvað sem þú síðan sérð eftir. Samviskubitið nagar þig að innan og þú rífur þig niður í huganum fyrir hversu ómögulegt foreldri þú ert. Síðan lítur þú í kringum þig og sérð að annað fólk á við svo miklu meiri vanda að stríða, það glímir við alvarleg veikindi eða mikla sorg til dæmis. Þá ferðu að skamma þig í huganum fyrir að hafa vogað þér að væla yfir einhverju svo „smávægilegu“ eins og að ráða ekki við uppeldið á börnunum þínum og samviskubitið heldur áfram að aukast!


Það er ekki nein keppni í gangi um hversu erfitt lífið getur orðið eða einhver skali sem segir til um hvaða erfiðleikar eru nógu erfiðir til að teljast óviðráðanlegir. Það er svo margt sem hefur áhrif á getu okkar til að takast á við erfiðleika í lífinu og eftir því sem við erum óstöðugri í andlegri heilsu, því erfiðara reynist okkur að takast á við erfiðleika. Óánægja í hjónabandi hefur áhrif á getu okkar sem foreldra, óánægja á vinnustað hefur áhrif á gæði okkar sem starfsmanns og fjárhagserfiðleikar hafa almennt slæm áhrif á getu okkar til að takast á við lífið.


Það er ekki gott að vera komin á þann stað að lífið virðist óviðráðanlegt en við leyfum okkur samt ekki að „væla“ yfir því af því að einhver annar á við stærri vanda að stríða.


Leiðin út úr völundarhúsi tilfinninga er að tala um líðan sína, tilfinningar og fá aðstoð við að finna útgönguleiðina.

bottom of page