Jónína Guðmundsdóttir
Umgengnisréttur barna

Barn sem ekki býr með báðum foreldrum sínum á rétt á því að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki talið andstætt hagsmunum þess. Umgengni snýst fyrst og fremst um samveru og önnur persónuleg samskipti barns við foreldri sitt. Skylda til að tryggja umgengnisrétt barns við það foreldri sem það býr ekki hjá hvílir á báðum foreldrum.
Í barnalögum er barni til viðbótar við umgengi við foreldra tryggður réttur til umgengi við aðra nána vandamenn í þeim tilfellum þegar að annað foreldri barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengisskyldur sínar við barn af einhverjum ástæðum eða ef að foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengi við barnið ef það er talið þjóna hagsmunum barnsins.
Undir nána vandamenn barns geta fallið afar og ömmur, systkini foreldra og síðast og ekki síst þeir sem hafa verið í hjónabandi eða sambúð með foreldri, þ.e. stjúp- eða sambúðarforeldrar sem hafa verið í nánum tengslum við barnið á meðan á hjúskap eða sambúð kynforeldris stóð.
Umgengi barns við foreldri er samt alltaf höfð í forgangi og skoða verður sérstaklega hvert og eitt tilfelli og meta hvernig það þjóni hagsmunum barnsins að njóta umgengi og samvistar við aðra vandamenn með reglubundnum hætti. Þannig er réttur til umgengis við aðra ekki eins afdráttarlaus og réttur barns til umgengi við foreldri.
Aðili sem óskar eftir reglubundinni umgengin við barn, hvort sem það er foreldri eða aðrir, geta leitað til sýslumanns og lagt fram beiðni um umgengni þar. Sé foreldri eða forsjáraðili ekki sammála tillögum um umgengin úrskurðar sýslumaður um inntak umgengninnar að undangenginni sáttameðferð. Eins og áður hefur komið fram eru hagsmunir barnsins ávallt í fyrirrúmi þegar umgengin er ákvörðuð og byggir úrskurður sýslumanns alltaf á því sem barninu er fyrir bestu. Áður en úrskurðað er í málinu verður að fara fram heildstætt mat á hagsmunum barnsins í hverju og einu tilfelli fyrir sig og því ekki hægt að segja að það sé einhver algild regla um það hvenær sýslumaður úrskurðar um umgengin við aðra en foreldra og hvenær ekki. Tengsl barnsins við viðkomandi og fyrri samskipti vega þó ávallt mjög þungt í þessari ákvörðunartöku og styðja sterk tengsl það að það sé barninu fyrir bestu að umgengin verði úrskurðuð.
Ef þú hefur einhverjar hugleiðingar varðandi umgengnisrétt barna við foreldri sem það býr ekki hjá eða aðra námkominna þá getur þú haft samband í síma 899-1777 eða á netfangið jonina@velferdlegal.is