top of page

Unglingaveikin


Það er því miður samfélagslega samþykkt að hormónastarfsemi unglinga sé sjúkdómsvædd og unglingar í tilfinninga- og hormónaflækju séu greindir með unglingaveikina!


Hvergi í sjúkdómkerfinu finnst sjúkdómurinn Unglingaveiki en er hann engu að síður oft notaður til að útskýra hegðun eða líðan ungmenna á kynþroska- og unglingsaldri.


Í mörgum tilfellum líta foreldrar svo á að barnið þeirra sé með unglingaveikina og þess vegna séu skapgerðarbreytingar þeirra eðlilegar og bregðast því ekki við á þann hátt sem barnið þarf á að halda. Viðbrögð foreldra við hegðunar-og skapgerðarbreytingum hjá börnum eru oft pirringur, skilningsleysi og kröfur um breytta hegðun. Niðurlægjandi athugasemdir þar sem vanþóknun gagnvart barninu heyrist hátt og skýrt geta grafið undan trúnaði og trausti milli foreldra og barns.


Sannanlega er unglingatímabilið til og staðfest er að miklar breytingar verða á hormónastarfsemi líkamans, hugsun og hegðun breytist, nýjar áskoranir standa frammi fyrir börnunum, nýjar og auknar kröfur eru settar á þau og freistingar um eitthvað spennandi eða hættulegt eru allt í kringum þau. Þetta tímabil reynist mörgum börnum mjög erfitt því þau ráða oft illa við hormónabreytingarnar, skapsveiflurnar verða of öflugar og viðbrögð bæði barnanna sjálfra sem og foreldranna skapa streituvaldandi umhverfi sem engum finnst gott að vera í. Barnið fær ekki þau viðbrögð sem það kallar eftir og bregst illa við mótlætinu sem það upplifir frá foreldrum. Foreldrarnir bregðast illa við breyttri hegðun barnsins sem skyndilega fer ekki eftir fyrirmælum og sýnir dónaskap.


Algengustu viðbrögð foreldra við mótlæti frá börnunum er að skamma, hækka róminn, halda ræðu, hóta eða gefa úrslitakosti. Börnin bregðast mjög illa við þessari aðferð og ýmist skella hurðum, rjúka út, öskra á móti og segja eitthvað sem þau meina ekki en vita að nær að særa foreldrana. Út frá þessum viðbröðgum skapast oft mikill samskiptavandi sem getur viðhaldist í mjög langan tíma, jafnvel ævilangt ef ekki er brugðist við. Ekki er óalgengt að foreldrar séu við það að gefast upp, ástandið á heimilinu er líkt við stríðsástand og vinnan er farin að vera griðarstaður foreldranna.


Barn á unglingsaldri hættir ekki að hafa þörf fyrir umhyggju, hlustun, samveru, knúsi, að tilheyra eða skilningi þegar það kemst á unglingaskeiðið. Í rauninni eykst þörfin fyrir þessum atriðum en börnin kalla eftir þeim á annan hátt en þau gerðu áður. Stóra verkefni foreldranna er að hlusta á börnin sín, lesa í líðan þeirra, spyrja og sýna skilning. Að foreldri sýni barninu sínu áhuga og gefi sér tíma til að vera með því styrkir tengslin og eykur líkur á að viðhalda trúnaði og trausti. Barn í mótþróa mun ekki sýna vilja til samvinnu ef því eru settir úrslitakostir í hótunartóni. Barnið þarf og vill hafa eitthvað um mál sitt að segja og er því samvinna og gagnkvæm virðing þau viðbrögð sem bæði foreldrar og börn þurfa að vinna eftir í samskiptum sínum.Unglingaveiki er ekki til, barnið fær ekki sjúkdóm sem eldist síðan af því. Barnið er að ganga í gegnum tímabil mikilla breytinga og það þarf stuðning og skilning foreldra sinna til að komast sem best í gegnum það!

bottom of page