Vinna barna og unglinga

Á þessum árstíma stíga mörg börn og unglingar sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum þegar þau fá sumarvinnu. Þessi reynsla gefur börnum og unglingum tækifæri til að þroskast og læra að það þarf að hafa fyrir peningunum til þess að hægt sé að kaupa hluti. Almennt er þó ekki talið að börn undir 13 ára eigi að stunda vinnu.
Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og reglugerð nr. 426/1999 er að finna reglur um vinnu barna og unglinga. Reglur um vinnu þessa tiltekna hóps voru settar í þeim tilgangi að störf sem börn og unglingar sinni séu í samræmi við aldur, þroska og líkamlega getu þeirra. Þessar reglur gilda þó ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem varir í skamman tíma inn á einkaheimilum eða í fjölskyldufyrirtæki, svo framarlega sem að vinnan sé ekki beinlínis skaðleg eða hættuleg.
Það fer eftir aldri og því hvaða árstíma vinnan á sér stað hversu margar klukkustundir á viku börn og unglingar mega vinna og hversu mikla hvíld þeim ber á fá á sólarhring. Til að tryggja nægilega hvíld mega börn ekki vinna á milli kl. 20 til 06 en unglingar 15-17 ára frá 22 til 06.
Börn 13-14 ára mega vinna tvær klukkustundir á dag og samtals 12 klukkustundir á viku þá mánuði þegar skólastarf er. Utan starfstíma skóla mega þau vinna sjö klukkustundir á dag og samtals 35 klukkustundir á viku.
Börn 15 ára mega vinna tvær klukkustundir á dag og samtals 12 klukkustundir á viku þá mánuði þegar skólastarf er. Utan starfstíma skóla mega þau vinna átta klukkustundir á dag og samtals 35 klukkustundir á viku.
Unglingar 15-17 ára mega vinna átta klukkustundir á dag og samtals 40 klukkustundir á viku óháð því hvort skólastarf er í gangi eða ekki.
Þó að ýmsar skyldur séu lagðar á atvinnurekendur til viðbótar þeim almennu skyldum sem atvinnurekendur bera gagnvart öllum launþegum þegar þeir ráða til sín börn og unglinga yngri en 18 ára þá bera foreldrar/forsjáraðilar einnig skyldur þegar barnið þeirra fer út á vinnumarkaðinn. Mikilvægt er að foreldrar fylgist með og kynni börnum sínum reglur sem gilda um atvinnuþátttöku þeirra. Eins er mikilvægt að foreldrar/forsjáraðilar fari yfir launaseðla með börnunum til þess að ganga úr skugga að þau fái greitt samkvæmt kjarasamningum og til samræmis við unnar vinnustundir.
Að lokum er rétt að benda á það að til þess að ráðningarsamningur barns undir 18 ára sé skuldbindandi fyrir barnið þá þarf að liggja fyrir samþykki foreldra/forsjáraðila, en atvinnurekendur eru skyldugir til þess að gera ráðningarsamning við alla launþega.